14.2.2007 | 09:27
Bresk börn með þeim óhamingjusömustu í heiminum!
Breskir fjölmiðlar fara hamförum yfir nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna í 21 iðnríki. Bretar á botninum ásamt Bandaríkjamönnum. Skandinavíska módelið á toppnum hér eins og annars staðar, ásamt Hollendingum. Ég veit ekki hvers vegna þetta ætti að koma Bretum á óvart og efast raunar stórlega um að staða barna hafi versnað á síðustu árum, hún hefur næstum örugglega batnað. Staða barna annars staðar hefur hins vegar batnað meira. Skólar í Bretlandi virðast vera góðir, a.m.k. þar sem við búum, séstaklega barnaskólarnir sem eru mjög líkir leikskólum. Skyndilega er 11 ára börnunum hins vegar kastað upp á næsta skólastig, sem er mjög líkt íslenska framhaldsskólastiginu.
Eldri dóttir mín er 11 ára og því í yngsta bekk í gagnfræðaskólakerfinu, eins og það væri kallað á Íslandi, í skóla sem er í hópi bestu skóla Bretlands samkvæmt könnunum. Í skólanum eru rúmlega 1000 nemendur. Kennslan virðist vera góð. Nemendurnir fá sérstakan tudor, sem þau hitta á hverjum degi, en annars fara börnin milli bygginga í ólík fög. Áhersla í þessum skóla er fyrst og fremst á vísindi, þannig læra 11 ára börn eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Kennslan kemur skemmtilega á óvart, en annað vekur furðu.
Það er hreinlega undarlegt fyrir gest eins og mig að fylgjast með krökkunum fara í skólann. Talsvert um 12-13 ára stráka sem reykja á leiðinni. Á heimleiðinni fer fjöldi þeirra í næstu sjoppu að kaupa nammi og snakk. Margir krakkanna virðast ekki borða neitt nema kartöfluflögur og nammi. Í skólamatsölunni er hægt að kaupa hamborgara, pizzur, snakk og gos eins og hver vill, að því er virðist niðurgreitt af borginni. Að vísu er hægt að kaupa hollan mat, en það virðist ekki vera í uppáhaldi hjá krökkunum þegar hitt er í boði. Ellefu ára stelpur mæta með málningardótið sitt í skólann. Vopnaðar maskara, varalit og spegli fara hléin milli tíma í að snyrta sig. Strákarnir fara hins vegar út og eru gæjalegir undir húsvegg, tilbúnir að taka við stöðunni, sem forfeður þeirra hafa gengt í árhunduð, sem höfuð fjölskyldunnar.
Við búum í borg sem er lítil, svipuð og Reykjavík í íbúafjölda en sem þjónustar líklega milli 2-300.000 manns, sem búa í hinu þéttbýla Hampshire. Þetta er ekki dæmigerð bresk borg, það því leyti að það er mjög lítið af innflytjendum og fátækt virðist vera mjög lítil. Rúmlega 70% íbúanna vinna við margvíslega þjónustu. Hér fara íbúarnir á kránna eftir vinnu og samfélagið allt er mjög kynjaskipt. Þetta kemur fram strax hjá krökkunum. Í stuttu máli sýnist mér að breska samfélagið þjáist af agaleysi, sem er allt öðruvísi og miklu alvarlegra en íslenska agaleysið. Breska agaleysið er afleiðing af íhaldssömu samfélagi, sem þarf nauðsynlega að ganga í gegn um stórfelldar breytingar. Þetta er allt spurning um forgangsröðun. Er mikilvægast að fara á kránna á hverjum degi klukkan 5 og vera til 7? Er nóg að byggja upp skóla þar sem nemendurnir fá góða menntun á sama tíma og þeir ýta undir íhaldsamar kynjamyndir? Er eðlilegt að stelpur líti á hlutverk sitt að vera sætar þegar þær eru 11 ára gamlar til að geta eignast mann og börn um tvítugt? (Að vísu hefur óléttum unglingsstúlkum fækkað mjög á síðustu árum) Er eðlilegt að 11 ára strákar séu farnir að undirbúa drykkju, fjölskyldu og vinnumunstrið, sem er helsta mein bresks samfélags? Sem betur fer eru breskir krakkar flestir ágætir, opnir, kurteisir og samviskusamir, og okkar stelpum hefur verið mjög vel tekið í skólunum þeirra. Bresku samfélagi veitir samt ekki af góðum skammti af skandinaviskum femenisma, sem myndi breyta ýmsu á tiltölulega skömmum tíma. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni í Bretlandi næstu daga.
Bresk stjórnvöld sökuð um að hafa brugðist breskum börnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:31 | Facebook
Um bloggið
Unnar bloggar
Færsluflokkar
Tenglar
Fréttir
Pólitík
- Heilbrigð skynsemi Sáttmáli Samfylkingar við kjósendur um þau verkefni sem nauðsynlegt er að vinna
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.