30.6.2007 | 02:23
Afmæli og heimkoma
Nýkominn heim úr 60 ára afmæli Hjalta Pálssonar ritstjóra Byggðasögu Skagafjarðar. Vandfundin sú samkoma sem getur státað að öðru eins samsafni snillinga. Þar voru samankomnir flestallir af fremstu sögumönnum Skagfirðinga, auk snilldar tónlistarmanna. Formleg dagskrá stóð vel á fjórða tíma og þá voru eftir einleikir allra hinna sem þurftu að láta ljós sitt skína í smærri hópum.
Skagfirðingar hafa afskaplega gaman að sögum og þótt maður hafi heyrt sumar 100 sinnum verður maður ekki leiður á þeim. Sagan af Sighvati Sighvats, stórsnillingi er frábær.
Þegar Hvati, eins og hann var nefndur, var til sjós vildi það til að skipsfélagi hans féll á milli skips og bryggju, þegar þeir félagarnir voru að koma til skips af einhverju ralli. Sighvatur gekk til skips og sagði hvað gerst hefði og var auðvitað miður sín út af þessu atviki, enda taldi hann þennan félaga sinn af. Skipsfélagarnir ruku hins vegar út og náðu að fiska manninn upp úr sjónum og reyndist gott lífsmark með honum. Þegar maðurinn kom til lífsins sagði hann. "Vitiði hvað karlhelvítið sagði" og átti þá við Hvata, "Hann sagði, "ég bið að heilsa honum pabba þínum, elskan mín", en faðir hans var þá látinn og "elskan mín" var viðkvæði Hvata.
Snilld alltsaman.
23.6.2007 | 00:30
Komin heim
29.5.2007 | 01:53
Lítill þessi heimur!
Undarlegt það sem kemur fyrir mann. Á föstudaginn fór ég í opinbera heimsókn í skjalasafn Hamp-skýris hér í Winchester og þar sem ég var að dást að risastórum skjalageymslunum og öllu starfsfólkinu þá var mér bent á að það væri Íri á safninu, sem væri að halda fyrirlestur, og langaði að hitta mig. Ég var auðvitað til í það. Alltaf gaman að hitta Íra. Hann heilsaði mér hins vegar á stórgóðri íslensku með norskum hreim. Hverjar eru líkurnar á að hitta Íra sem talar íslensku með norskum hreim í Winchester? Varla mjög miklar. Í ljós kom að þetta var írska skáldið Michael O'Sidhail ,sem lærði í Osló og drakk, að eigin sögn, mikið með íslenskum vinum. Hann kenndi reyndar líka gelísku við Háskóla Íslands um tíma. Sem sagt það fór vel á með okkur. Gaman að þessu.
12.5.2007 | 15:20
Þetta er góður dagur til að kjósa breytingar
Ingibjörg Sólrún kaus í Hagaskóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.5.2007 | 08:41
Eurovisionhryllingurinn
Gaman að þessari Eurovisionkeppni. Hér í Bretlandi hafa menn þungar áhyggjur af keppninni eftir úrslit gærkvöldsins, þar sem Austur-Evrópuríki unnu kosninguna glæsilega. Sérstaklega voru Bretar miður sín útaf Dönum, og ég get ekki verið annað en sammála þeim. Hins vegar telja Bretar að möguleikar þeirra á sigri hafi aukist, þar sem öll bestu lögin hafi fallið úr keppni. Breska lagið er hins vegar afburða leiðinlegt svo þeir eiga enga möguleika. Ég spái þeim einu af neðstu sætunum. Sú niðurstaða ásamt lélegri frammistöðu hjá hinum fjórum þjóðunum sem borga mest og fá alltaf að vera í úrslitum, Spánn, Frakkland og Þýskaland getur haft í för með sér að Eurovision leggst af. Það eru hvort sem er komnar keppnir sem eru með miklu meira áhorf og eru á svipuðum markaði.
Eiríkur stóð sig hins vegar vel og lagið var þokkalegt, en í tilefni af þessu meinta samsæri Austur-Evrópu. Hvernig stóð á því að Pólland komst ekki áfram? Pólverjar eru í kippum um alla Evrópu. Vantar þeim þjóðerniskenndina, eða eiga þeir ekki síma?
Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.5.2007 | 08:31
30,6% óákveðin!!!
Svo virðist sem síðasta spurningin í könnunum Félagsvísindastofnunar og Gallup skipti gríðarlegu máli þegar kemur að niðurstöðunum. Síðasta spurningin er: Hvort hyggstu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhverja aðra flokka. Í þessari könnun Blaðsins eru 30,6% óákveðin en í könnunum hinna fyrirtækjanna miklu færri. Þetta ber það með sér að Sjálfstæðisflokkurinn er stórlega ofmetinn í þessarri könnun. Líklega sem nemur allt að 5% fylgi.
Ríkisstjórnin héldi velli skv. könnun Blaðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2007 | 21:36
Tjallinn er tjúll
Eftir nokkurra mánaða umhugsun ákváðum við hjónin að leigja okkur bíl og aka um fagrar sveitir og bæi Englands í nokkra daga. Það eru aðalega tvær ástæður fyrir því að við vorum ekki löngu búin að því. Í fyrsta lagi eru bílar ávanabindandi. Maður getur illa verið án þessara tækja þegar maður fer að nota þau reglulega. Hins vegar er auðvitað þessi undarlega árátta Englendinga að keyra vitlausu megin á veginum, sem er í besta falli þreytandi, í versta falli heimskuleg. Það skrítna er að það tók ekki nema ca 2 klukkutíma að venjast þessu. Ætli ég verði ekki bara vinstramegin þegar ég kem heim aftur. Það er auðvitað betra að vera vinstramegin í lífinu.
Í kvöld bárust þær fréttir að Bretar hefðu unnið þann stórsigur á Evrópuþinginu að þeir yrðu ekki neyddir til að afnema þær guðlegu mælieiningar, eins og pintur og þumlunga. Það er nú aldeilis fínt. Mér þætti líka vænt um að þeir héldu í mælieininguna Hogshead,(svínshöfuð) sem eru víst talsvert margir lítrar. Og aldrei, aldrei skulu þeir afnema pundið, hvað gera menn ef þeir geta ekki haft mynd af Betu drottningu á seðlunum?
4.5.2007 | 22:09
Íhaldið heldur velli
Við Framsóknarmenn í Winchesterhreppi urðum fyrir nokkru áfalli í kosningunum í gær. Eftir erfiða talningu, sem tók á annan sólarhring varð niðurstaðan sú að íhaldið hélt velli, naumlega þó. Framsóknar-liberalar unnu tvö af Verkamannaræflunum, sem eiga nú engin sæti í okkar ágæta hreppi. Svo eru einhverjir óháðir, en í öllu falli dugar það ekki til að fella íhaldið. Íhaldið hefur þannig eins sætis meirihluta eins og áður. Það er sama sagan allstaðar hér á Suðurlandinu. Íhaldið vinnur heldur á og heldur velli þar sem þeir höfðu meirihluta. Unnu Portsmouth (sem okkur þykir heldur súrt í broti). En við Frammarar höldum ennþá Southampton.
Framsóknar liberalar töpuðu yfirleitt sætum á Suðurlandinu. Ég er að hugsa um að hætta að vera Framsóknarliberali. Líklega er bara betra að vera krati hérna, eins og á Íslandi. Það góða við stöðu þeirra hér á Suðurlandinu er að hún getur varla vesnað. Verkamannaflokkurinn ræður varla einu einasta kjördæmi. Humm, þarf að ræða þetta við Blair, Brown og hina strákanna.
Þeim veitti hins vegar ekkert af því að láta Sollu kíkja á þá hérna til að kenna þeim femenisma. Þá myndu þeir kannske fá nokkur atkvæði.
3.5.2007 | 08:55
Jarðafaraferðaþjónusta
Hér er hugmynd fyrir ferðaþjónustuna, nýstolin héðan frá Winchester. Yfirleitt eru jarðarfarir fremur sorglegar athafnir, a.m.k. á Íslandi, en hér nei. Hérna er góð jarðarför- góð fyrir ferðaþjónustuna. Í dag verður til moldar borinn Allan Ball, sem frægastur er fyrir að hafa verið enskur heimsmeistari í fótbolta, fyrir ca 40 árum. Allan var eflaust prýðis kall og bjó hérna í nágrenninu, en í dag verður hann jarðsettur frá Dómkirkjunni í Winchester.
Fréttatímar hafa verið fullir af fréttum af þessari jarðarför, hverjir ætli að mæta og hverjir ekki. Búist er við um 13-15.000 gestum. Sérstaklega tekið fram að næg bílastæði séu fyrir hendi og líkur á að Sir Ferguson hinn skoski ætli að mæta (ef hann er búinn að jafna sig eftir tapið í gær) og líklega bara Beckham líka og fullt af fleiri frægum köllum. Þetta verður sem sagt ægilegt fjör. Ætli fagnaðarlátunum muni aldrei linna. Það er annars leiðinlegt fyrir Englendinga að þurfa að vera að jarða alla þessa heimsmeistara sína. Ætli þeir verði ekki allir dauðir, áður en Englendingar verða aftur heimsmeistarar. Það er a.m.k. buissness fyrir ferðaþjónustuna, kannske ég kíki niður í bæ og athuga hvort ég sé Becks. Ég fæ mér þá bara Becks ef það gengur ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2007 | 08:32
Einmenningskerfið í allri sinni mynd
Það er í raun og veru furðulegt að fylgjast með því hvernig einmenningskjördæmiskerfið virkar í raun og veru. Hér í Winchester eru kosningar eins og víða annars staðar. Hér er baráttan milli Íhaldsmanna og Frjálslyndra. Kosningabaráttan er að mörgu leyti lærdómsrík og sýnir að mínu mati hvers vegna á ekki að taka þetta kerfi upp á Íslandi.
Það fyrsta sem menn gera í einmenningskjördæmum er að útiloka öll framboð, nema þau tvö sem talin eru eiga flest atkvæði. Í þessu tilfelli sendu Liberals frá sér marga bæklinga, sem báru yfirskriftina Labour is out of the race, og sýndu að allir þeir sem ætluðu að kjósa Verkamannaflokkinn ættu að hætta við það, vegna þess að með því væru þeir að kasta atkvæði sínu á glæ. Verkamannaflokkurinn reyndi ekki einusinni að svara þessu, heldur hvarf út úr kosningabaráttunni með öllu.
Í öðru lagi líma þeir tveir frambjóðendur sem eftir eru sig saman í öllum málum. Engin munur er á stefnumálum Íhaldsflokksins og Frjálslyndra og ekki verður séð að þeir hafi neinn áhuga á að gera ágreining um stefnumál. Frjálslyndir eru grænir og Íhaldsbláminn er orðinn fagurgrænn. Já það er ekki bara á Íslandi sem Íhaldið verður grænt, svona í aðdraganda kosninga. Meðalmennskan og skoðanaleysið er allsráðandi, og áhugi almennings eftir því.
Niðurstaða kosninganna verður svo? Tja, það skiptir bara engu máli. Ég spái Liberals sigri. Þeir eru svosem ekki óvanir því á þessu svæði, ólíkt flestum öðrum héruðum á Englandi. En Liberals eru þó að heyja kosningabaráttu, einir flokka. Íhaldsmenn sjást annað slagið, meira að segja Cameron formaður hjólandi um Hampshire, en Verkamannaflokkurinn og Blair eru í Skotlandi að reyna berja í brestina þar. Í Skotlandi er hin raunverulega spenna í þessum kosningum, og væri verulegt áfall fyrir Skotann Gordon Brown ef skoskir þjóðernissinnar ná þar meirihluta.
Kosningar á Bretlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Unnar bloggar
Færsluflokkar
Tenglar
Fréttir
Pólitík
- Heilbrigð skynsemi Sáttmáli Samfylkingar við kjósendur um þau verkefni sem nauðsynlegt er að vinna
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar