Undarleg þessi lögfræði!

Rök lögfræðinga Landsvirkjunar um að þessi 3025 hektarar séu ekki nema brot af stærð Brúar, og þessvegna eigi að greiða minna fyrir þá en aðra hektara, eru stórfyndin. Ef einhver rænir KB banka ætti hann að fá mildari dóm en sá sem rænir Glitni. KB banki á jú meiri pening, ekki satt? Land er land og það er metið til verðs eftir gæðum þess, en hitt er annað mál að þetta þætti ekki ásættanlegt verð fyrir hektara annars staðar.


mbl.is Landsvirkjun greiðir 63,7 milljónir fyrir land sem fer undir Hálslón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögufræg hús liggja undir skemmdum

Lindargata er elsta gata Sauðárkróks og við hana standa mörg af elstu og þekktustu húsum Sauðárkróks. Staddur í útlöndum á ég erfitt með að meta nákvæmlega hvaða hús hafa orðið verst úti, en sýnist af myndum að elsta hús Sauðárkróks, sem enn stendur á upprunalegum stað, Erlendarhús, byggt 1875, hafi orðið afar illa úti. Eins hafi Villa Nova, sem er eitt af glæsilegustu byggingum landsins byggt 1904, og Gullsmiðshús, sem stendur nokkru sunnar við Lindargötu orðið fyrir verulegum skemmdum. Það er því ljóst að hér er um mikið menningarlegt tjón að ræða og þarf að taka tillit til þess þegar skemmdir eru metnar. Sem dæmi kostaði endurgerð á stiganum norðan Villa Nova um 500.000 krónur í endurbyggingu fyrir nokkrum árum og mikilvægt að unnið sé bæði hratt og vel í hreinsun og þurrkun á húsunum svo þau verði ekki fyrir frekari skemmdum.

Í öllu falli er þetta skelfilegt tjón fyrir menningarsögu Skagfirðinga ef ekki tekst að koma í veg fyrir frekari skemmdir á þessum húsum. Hér þurfa eigendur, tryggingarfélög og RARIK að vinna fljótt og vel.


mbl.is Aurskriða féll á Sauðárkróki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Garðar Cortes að meikaþað

Mér brá í dag, þegar ég var á gangi á Oxfordstræti í London og sá gríðarstóra mynd af Garðari Cortes á besta stað í bænum. Hann ætti a.m.k. ekki að fara framhjá Lundúnabúum drengurinn. Gott hjá honum, og þeim sem koma honum á framfæri!

 Garðar að verða frægur

 


Farinn að kjósa

Mikið er nú gaman að fá að kjósa svona löngu fyrir kosningar. Á morgun fer ég nefnilega til London og eins gott að nota tækifærið þá, því það er meiriháttar aðgerð að fara á kjörstað hér um slóðir. Þeir sem búa í norðanverðu Englandi eiga um fleiri kosti að ræða en að brölta í íslenska sendiráðið í London, en við sunnlendingar notum bara tækifærið að spássera í höfuðborginni í nokkra daga.

Kærar þakkir mbl.is

Ég vil með þessarri færslu lýsa ánægju minni með blaðamenn Morgunblaðsins, sem með birtingu hennar hafa sýnt að engin frétt er svo ómerkileg að hún eigi ekki erindi í blaðið. Hér hafa blaðamenn sýnt lofsvert frumkvæði og eiga blaðamannaverðlaun skilið.
mbl.is Clooney greiddi 1.300 krónur fyrir glas af límonaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burping Ron látinn

Burping RonUppáhaldsblaðið mitt er Winchester Chronicle, sem er svona Feykir, bara í stærra broti að breskum sið. Cronicle kemur út á fimmtudögum eins og Feykir og er víðlesinn í öllu Hampshire héraði. 

Yfirleitt eru dánarfréttir ekki skemmtilegar en þessi þótti mér dálítið skondin

Renowned Winchester character, Ron Purse, died of heart failure, an inquest heard last week. The 71-year-old  known to many as Burping Ron was found at his home in Fivefields Road, Highcliffe, after neighbours raised the alarm after he had not been seen for several days. 


Sirkus Billy Smart

Það vita allir að eftir jólunum er til enskis að hlakka nema áramótanna, sérstaklega fyrir unga drengi.

Það er gamlaárskvöld. Búið að borða, búið að vinda sér í gegn um ávarp forsætisráðherra (Ávarp Gunnars Thoroddsen ætti að gefa út á dvd, enda er það líklega lengsta ræða sem forsætisráðherra hefur haldið, og með fæstum orðum) Svipmyndir frá innlendum vettvangi voru þolanlegar, en þær af erlendum síðri. Sem ungur drengur var þolinmæðin búin um þetta leyti, en þá skelltu Andrés Björnsson og félagar inn dagskrárlið, sem var í minningunni algjörlega óþolandi; Sirkus Billy Smart. Í besta falli væri hægt að horfa á þetta sjónvarpsefni á fimmtudagskvöldum, en á gamlaárskvöld var ekki hægt að hugsa sér þetta dagskrárefni, nema sem pyntingu á börnum.

Semsagt ég hef ekki sérlega góðar minningar um þennan sirkus og hef haft horn í síðu þessa Billy Smart og jafnvel útvarpsráðs alls alla tíð síðan. Sem betur fer hættu sýningar á þessu upp úr 1980 og hafa ekki sést síðan, en að vísu fundu Andrés og félagar aðra sirkusa, sem voru litlu meira spennandi.

Ástæðan fyrir þessari sáru upprifjun er sú að sirkus Billy Smart er í Winchester þessa daganna, og eins og í sveitinni í gamladaga verður maður auðvitað að mæta á slíkar samkomur. Ég þurfti sem sagt að fara með stelpurnar á sýningunna.

Það má segja Billy og félögum til hróss að þeir stunda fjárkúgun af gamla skólanum. Rukka stórfé fyrir alla hluti, smáa sem stóra og sýningin samanstóð af fljúgandi Rússum, eldgleypandi Hollendingum, bardagamönnum frá Mongólíu og indverskum undirfatamódelum. Sem sagt allt sem hugurinn girnist fyrir unga sem aldna. Nema kannski fyrir mig. Líklega hef ég ekki sæst við Andrés ennþá, það er leitt, enda Andrés heitinn heiðursmaður hinn mesti og sirkusinn ja bara nokkuð góður, þrátt fyrir allt.


Vinstri grænt og kommúnistaflokkar Evrópu

„Grænn í gegn“ er frasi sem nú heyrist í náttúruverndarumræðunni og virðist vísa til þess að viðkomandi sé á einhvern hátt hreinni eða heilli í afstöðu sinni til umhverfisverndar en einhverjir viðmiðunarhópar. Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur sterklega gert tilkall til hreinleikastimpilsins en svo virðist sem mjög margir, ekki síst á miðju og til hægri í stjórnmálum, séu vantrúaðir á réttmæti þess. Skýringin er ekki aðeins sú augljósa að þar sem fulltrúar Vg hafa verið í þeirri stöðu að axla ábyrgð á atvinnumálum þá hafa þeir, líkt og aðrir, ýmist stutt eða ekki sett sig á móti virkjunum og stóriðju, t.d. stóriðjuuppbyggingu með norðlenskri orku við Húsavík, orkusölusamninga OR við Alcan vegna stækkunar álversins í Straumsvík, virkjanir í neðri hluta Þjórsár og svo framvegis. Rætur þessarar vantrúar liggja ekki síður í sögulegum skýringum þess að flokkarnir yst til vinstri í Evrópu tóku náttúruvernd svo sterklega upp á sína arma eins og hér verður rakið í stuttu máli.

 

Sameiginleg afstaða Sjálfstæðisflokks og Vg til aðildar að Evrópusambandinu vakti nokkra athygli, ekki síst þegar litið er til þess hve nátengd hún er efasemdum og andstöðu kommúnistaflokka Evrópu sem nú fylkja sér flestir undir merkjum vinstri grænna á Evrópuþinginu. Það kemur þó ekki á óvart að málefnaáherslur og afstaða Vg dragi dám af bandalagi evrópskra flokka yst á vinstri kantinum þar sem flokkurinn lítur beinlínis á samtökin GUE/NGL sem sinn flokkahóp í Evrópu og sendir m.a. fulltrúa á þing samtakanna.

 

GUE/NGL er skammstöfun sem stendur fyrir Gauche Unitaire européenne eða European United Left/Nordic Green Left, samband Evrópuþingmanna þessara tveggja pólitísku sambanda og stofnað m.a. til að takast á við hugmyndafræðilegar afleiðingar falls Sovétblokkarinnar fyrir flokkana yst til vinstri í Evrópu. Gömlu kommúnistaflokkarnir voru í raun í leit að nýjum grunni til að fóta sig á og höfða til kjósenda eftir nýjum leiðum. Eins og fram kemur í lýsingu á aðdragandum á vefsíðu European United Left komu áherslurnar á friðar- og umhverfismál auk femínisma strax fram. Vaxandi efasemdir um Evrópusambandið fylgdu síðar en fræ þeirra sjást í gamalkunnugu andófi gegn markaðsvæðingu:

 ...in June 1998, personalities from a number of left socialist, Communist and red-green parties of the European Union met in Berlin on the eve of the 1999 elections to the European Parliament to think about new forms and ways of cooperation. Many parties of the transforming European Left, after a phase of difficult reorientation of their politics after the upheavals of 1989/90, had reached the conclusion that it was high time to build up a more concrete collaboration, so as to convey a common profile to this European Left. As a result of the meeting, thirteen European Left-wing parties in January 1999 in Paris for the first time elaborated and passed a common call to the European elections addressed to all people living in the EU. In this call, the participating left parties formulated common aims and key ideas for a social and ecological, democratic and peaceful, solidarity-based Europe as well as an outline of common goals for their cooperation in the EU. After the elections in June 1999, the Confederated Group of the United European Left/Nordic Green Left (Gauche Unifiée Européenne/Nordic Green Left, abbr. GUE/NGL) in the European Parliament was formed on that basis. [...] In the light of the strength and tradition as well as the expectations of the European workers’, feminist, ecological and peace movements, it is high time that the political Left live up to that responsibility. We want to contribute to the formulation and realisation of political strategies. This without any doubt is the central challenge to Left parties in the EU and in Europe in a situation, in which neo-liberal thought has apparently conquered ever more space in the minds of people, in a situation of seeming absence of alternatives to capitalist market logic, to cost reductions and to the rigid and outrageous social demolition, yes indeed to the economic market sale of the whole society. 

Hér á Íslandi var stofnaður flokkur með sömu áherslum þetta sama ár og tók sér einmitt hina algengu skírskotun til „vinstri“ og „græns“ sem nafn.

 

Stærsti aðildarflokkurinn að GUE/NGL og einn af stofnendum GUE kennir sig einnig við vinstrið. Það er þýski Vinstriflokkurinn, Die Linkspartei/PDS (Partei des Demokratischen Sozialismus) eða Die Links. Fram að falli Berlínarmúrsins hét flokkurinn Sósíalíski einingarflokkurinn og réð Alþýðulýðveldinu Þýskalandi.

 

Annar aðildarflokkur GUE þótt hann eigi ekki fulltrúa á Evrópuþinginu er Kommúníski verkalýðsflokkurinn í Ungverjalandi sem varð til 1989 við endurskipulagningu Sósíalíska verkalýðsflokksins, fyrrum valdaflokks landsins.

 

Í kjölfar 1989 til 1990 og þess „umróts“ (upheavals skv. GUE) sem þá varð við fall Sovétríkjanna og kommúnistastjórna Austur Evrópu hafa jaðarflokkar yst til vinstri almennt spjarað sig mun betur á Norðurlöndunum og í Suður-Evrópu en í Mið- og Austur-Evrópu. Fylgið hefur jafnan verið um og yfir 10% á Norðurlöndunum sem er af sumum talin ein af skýringum þess að þar hafa flokkar græningja ekki náð sömu stærð og fótfestu og víða annars staðar í Evrópu. Stærsta flokknum innan GUE/NGL, arftaka Austurþýska kommúnistaflokksins, Links/PDS hefur raunar tekist að endurheimta brotabrot af fyrri styrk.

 

Þessi árangur Links/PDS hefur vakið athygli hinna arftaka kommúnistaflokkanna sem líta sumir hverjir á GUE/NGL samstarfið sem stökkpall til áhrifa. Áhersla er lögð á að finna breiðari samsvörun með kjósendum eins og kemur til dæmis fram í viðtali við leiðtoga Kommúnistaflokks Bóhemíu og Móravíu í Tékklandi, (KSCM) sem birtist 2003. Þessi arftaki tékkneska kommúnistaflokksins hefur verið stoltur af kommúnískri arfleifð sinni þótt hann hafi orðið að breyta stefnu sinni til að uppfylla lög sem sett voru eftir 1989. Í viðtalinu lýsir Jiri Dolejs aðdáun sinni á því hvernig PDS tekst að ná til grasrótarinnar með því að nálgast „framtak almennings á sviði friðar, umhverfismála og félagsmála“. Hann segir þetta fordæmi fyrir Kommúnistaflokk Bóhemíu og Móravíu um hvernig opna megi stefnuna til að breikka skírskotunina: „Því meira sem flokkarnir opna stefnu sína, því fleiri kjósendur eru þeir að ávarpa“.

 

Leið flokkanna yst á vinstri kantinum, m.a. arftaka gömlu kommúnistaflokkanna í Austur Evrópu, til að tryggja sér framhaldslíf og breikka skírskotun sína meðal kjósenda hefur því einkum falist í að taka umhverfis- og friðarmálin auk kvenréttindabaráttunnar upp á sína arma auk fleiri félagslegra réttlætismála en auk þess hefur vaxandi tortryggni gætt í garð meintrar „nýfrjálshyggju“ og kapítalisma Evrópusambandsins, ekki síst í kjölfar Maastricht sáttmálans. Þetta tvennt fer svo oft saman þannig að stundum er erfitt að greina hvaða hluti orðræðunnar er í þágu náttúruverndar og hvað er barátta gegn fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum og fjármagni. Sumir ganga svo langt að halda því fram að ekki sé hægt að vera grænn án þess að vera rauður.

 

Stellan Hermansson, framkvæmdastjóri Nordic Green Left hópsins á Evrópuþinginu var sérstakur gestur á Landsfundi Vg 2003 og í ávarpi sínu vék hann bæði að Evrópuandstöðunni og því erfiða verkefni að byggja upp á ný flokkanna yst til vinstri, einkum í Mið- og Austur Evrópu. Ein af leiðunum var að pakka rauðu fánunum og tilvísunum til sósíalismann en taka upp aðrar áherslur:

 Núna erum við að reyna að mynda tengsl við vinstri- og framfarasinnuð öfl í þessum tíu væntanlegu aðildarríkjum. En eins og þið getið ímyndað ykkur þá er erfitt að byggja upp nýjar og lýðræðislegar vinstrihreyfingar sem geta unnið hylli fólks á skömmum tíma. Ég er viss um að til lengri tíma litið munu hugmyndir um félagsleg réttindi og réttlæti, jafnrétti og raunverulegt lýðræði ná fótfestu innan nýrra, framfarasinnaðra stjórnmálahreyfinga í Mið- og Austur-Evrópu þótt þær gangi ekki endilega fram undir merkjum sósíalisma eða rauðum fánum. Það er heldur ekki nafnið sem máli skiptir heldur innihaldið, hugmyndirnar og hugsjónirnar. [...] 

Og Stellan er sammála Jiri Dolejs frá Kommúnistaflokki Bóhemíu og Móravíu, leiðtogum Links/PDS og stofnendum GUE um hvaða mál vinstri flokkarnir geti tekið upp til að ná fótfestu:

 Og það er mín sannfæring að með samþættingu grænna og kvenfrelsis hugmynda, ásamt nútíma stéttargreiningu og félagslegum áherslum, þá getum við þróað öfluga vinstrihreyfingu sem eftirspurn er eftir í okkar samfélagi. 

Á flokksþingi Vinstri grænna í byrjun september 2006 var rauði þráðurinn í umræðum einmitt sá að flokkar sem láta sig umhverfismál og jafnrétti varða verði að vera róttækir og að hægriflokkar geta ekki eignað sér þessa málaflokka. Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vg orðaði þessa hugsun beint út: „Það er ekki hægt að vera grænn án þess að vera vinstri“.

 

Í grein sem Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vg, ritaði um umhverfisstefnu Samfylkingarinnar í Morbunblaðið 21. september 2006 sagði hún að í aðdraganda kosninga sé „eðlilegt að flokkarnir kíki í fataskápinn og verði sér úti um ný spariföt ef þau gömlu eru ekki lengur klæðileg.“ Hún kveðst fagna því að allir stjórnmálaflokkar séu að vakna til vitundar um mikilvægi umhverfismála en hnýtir svo aftan við: „En helst hefði ég kosið að slík stefna og stefnubreytingar risti djúpt og séu trúverðugar.“

 

Kaldhæðnin í núverandi stöðu er einmitt sú að sífellt fleiri kjósendur sem telja sig á miðjunni eða til hægra efast nú um að hin mikla og samræmda áherslubreyting flokkanna yst til vinstri í evrópskum stjórnmálum í kjölfar hruns kommúnistaflokka gömlu Austur Evrópu og skipulögð upptaka umhverfismála og jafnréttismála til að „breikka skírskotun“ flokkanna meðal almennra kjósenda risti í raun djúpt eða sé trúverðug þegar grannt er skoðað. Þegar umhverfisverndarfólk sem telur til sig á miðju eða til hægri í litrófi stjórnmálanna horfir yfir þessa sögulegu umbreytingu vinstrihreyfingarinnar í Evrópu frá rauðu yfir í grænt vakna efasemdirnar um að í raun sé á ferð frekar gamaldags afturhaldspólitík og baráttu gegn „auðhringjum“ í nýjum grænum sparifötum af því gömlu fötin voru ekki lengur klæðileg. Sífellt fleiri einlægum náttúruverndarsinnum, sem styðja aðra stjórnmálaflokka, svíða mjög endurteknar aðdróttanir um að þeirra skoðanir séu ekki jafn „heilar“ eða trúverðugar og sú stefnubreyting sem mótuð var sameiginlega af gömlu kommúnistaflokkunum sem viðbrögð við falli Austurblokkarinnar. Einmitt þess vegna er nú gerð alvarlega atlaga að því að hrifsa gæðavottunina „grænn í gegn“ úr höndum fulltrúa þessarar arfleifðar í íslenskum stjórnmálum.


Karen Barratt í bæjarstjórn!

Ég er glaður í dag, vegna þess að ég hitti frambjóðanda okkar framsóknarmanna í búðinni í dag. Hún var að tryggja sér atkvæði Indverja og Pakistana, sem eru nokkrir hérna og reka allir svona lokal búðir. Það er gott. Þeir nenna nefnilega að vinna. Okkar Indverji opnar búðina klukkan 6 á morgnanna og lokar klukkan 8 á kvöldin og hann er alltaf sjálfur á bak við búðarborðið. Í búðinni aðeins lengra í burtu er annar Indverji, hann er ekki eins duglegur. Hann lokar klukkan 6 á daginn, og kýs örugglega íhaldið.

En Karen Barratt er sómakona. Er í fínum fötum og tekur í höndina á okkur kjósendunum. Það er traustvekjandi. Svo býr hún líka til fína bæklinga. Ég á enn eftir að komast að því hverju Karen kemur til með að ráða þegar við erum búin að kjósa hana í bæjarstjórn, en vinur hennar kom í heimsókn í fyrradag með bækling. Í honum voru þrjár stórar myndir. Af Karen Barrett á spítala, af Karen Barrett að setja upp öryggismyndavél og af Karen Barrett og vinum hennar að mótmæla hrað akstri. Ég get aðeins ályktað að Karen Barrett hafi orðið fyrir bíl, sem hafi keyrði í burtu á ofsahraða og engin vitni hafi verið til staðar. Svo hafi hún bara drifið sig á spítalann.

Annars erum við stuðningsmenn Karenar á því að Verkamannaflokkurinn eigi ekki séns í kosningunum 5 maí og þess vegna viljum við að allir sem ætla að kjósa hann, kjósi bara okkur, þannig að helv. íhaldið komist ekki að í St. Pauls. Það væri ægilegt.


The Ásgrímsson Syndrom

Ég veit ekki hvort Halldór Ásgrímsson þekki Gordon Brown vonarpening jafnaðarmanna í Bretlandi. Ég veit hins vegar að Gordon Brown er Skoti, að vísu mjög enskur skoti. Það færir okkur nær Íslandsströndum, spurning hvort skoskir sjómenn hafi gert strandhögg á Austurlandi fyrr á öldum. Í fyrradag var kosið um fjárlagafrumvarp þeirra Blair og félaga í þinginu. Blair var fjarri góðu gamni en Brown sat í þingsal á meðan hin langdregna atkvæðagreiðsla fór fram. Ég held að hann hafi sofnað tvisvar. Annað slagið reis hann upp við dogg og stundi þungan, en fór jafnharðan að sofa aftur. Ef ekki hefði komið til sá undarlegi siður að þingsalur væri rýmdur þegar atkvæðagreiðsla fer fram, væri hann þarna eflaust ennþá. Hann vaknaði sem sagt fyrir rest og dreif sig til Afganistan, en virtist mjög þreyttur og pirraður í kvöldfréttunum. Ég spái því að Verkamannaflokkurinn bíði gríðarlegt afhroð með þennan mann við stjórnvölinn, en enn er örlítil von um að eitthvað það gerist, sem leiði til þess að hann taki ekki við flokknum. Maður getur bara vonað!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Unnar bloggar

Höfundur

Unnar Rafn Ingvarsson
Unnar Rafn Ingvarsson
Unnar Ingvarsson. Sagnfræðingur á Sauðárkróki, nú búsettur í Winchester í Englandi. Þeir sem þurfa að hafa samband er bent á póstfangið unnar.ingvarsson@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Garðar að verða frægur
  • Burping Ron
  • Butter Cross í High Street
  • Dómkirkjan í Winchester
  • Vetrardagur í Skagafirði

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband