Frábært hjá Birgi Leifi

Frammistaða Birgis Leifs á síðustu mótum hefur verið stórkostleg. Í mörg ár hefur hann og fjölskylda hans lagt á sig gríðarlega vinnu og mikla fjármuni til að láta draum hans verða að veruleika að spila með þeim bestu í heimi. Nú virðast þau vera að uppskera. Svo er bara að klára dæmið og koma sér í fremstu röð. Koma svo!
mbl.is Birgir Leifur: „Stefni á eitt af 20 efstu sætunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú skemmtileg hugmynd

Að kalla götur eftir persónum í skáldsögum H.K.L. er auðvitað fín hugmynd. Reyndar væri kannske við hæfi að velja aðeins einfaldari nöfn. Ég vona að enginn útlendingur eigi erindi í Ástu-Sólliljugötu á næstunni. Hins vegar er allt í lagi og ágætur siður að kalla götur eftir fólki, sögulegum atburðum o.s.frv. Það færir okkur nær sögunni og gerir hana hluta af lífi okkar. Við eigum einstök dæmi um slíkt frá eldri tíð. Ingólfsstræti í Reykjavík og hið þjála nafn Helgamagrastræti er á Akureyri. Götur geta heitið öðrum nöfnum en Aðalgata eða Melavegur. Semsagt að flestu leyti fínt mál. Gott væri samt ef aðalgatan í hverfinu fengi nafnið Halldórsstræti.
mbl.is Götur nefndar eftir kvenpersónum úr verkum Laxness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við framsóknarmenn - í Winchester

Við framsóknarmenn í Winchester, þ.e. aðalega ég urðum fyrir nokkru áfalli í dag. Við eða ég komumst nefnilega að því að helv. íhaldið er með meirihluta í Winchesterhreppi. Ég sem hélt að við réðum þessu þorpi. En nei, svo er ekki. Ég hef mér til málsbóta að við framsóknarmenn ráðum í okkar hverfi, þ.e. St. Pauls, sem er auðvitað eitthvað alvirðingarverðasta hverfið í Winchester. Ég hef eftir ítarlegar rannsóknir ekki komist að því hverju við ráðum nákvæmlega. Hef þó komist að því að við ráðum engu um gatnakerfið, gangstéttir, sóðaskap og drykkjuskap, en þessi atriði eru einmitt þau sem mest eru ámælisverð í okkar hverfi. Nú eru kosningabæklingarnir að streyma inn um dyralúguna. Ég hendi samviskusamlega öllum bæklingum, sem eru ekki frá okkur framsóknarmönnum, en gæti þess að setja þá í endurvinnanlegu tunnuna. Hvernig gengur annars með þessi mál í hinu umhverfisvæna Íslandi?

Verðlag í Bretlandi og Íslandi

Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn kolruglaður í verðlagi á milli þessara landa. Það bætti ekki út skák að fara heim í byrjun mars og fylgjast með verðlækkunum í tilefni af vsk lækkuninni. Ég fór í Tesco í dag, en fyrir þá sem ekki vita er Tesco langstærsta verslunarkeðja Bretlands, þegar kemur að matvöru. Svona svipuð og Bónus, bara miklu betri þjónusta, en lávöruverðsverslun samt. Hún hefur mjög mikla markaðshlutdeild. Við förum sjaldan í Tesco aðalega vegna þess að hún er dálítið langt í burtu og ekki þægilegt að labba heim með varninginn. En við tökum þá leigubíl, sem kostar bara 500 kall. Einstaka vörur eru dýrari í Tesco en í Bónus, aðrar miklu ódýrari. Kjúklingar kosta ca 1/3 af því sem þeir kosta heima, svínakjöt allt að helmingi ódýrara og verðmunurinn á nautakjöti er mjög mikill, líklega yfir 50%.  Annað er alls ekki ódýrara hér, gos og mjólk eru t.d á svipuðu verði. Ávextir eru ekki mikið ódýrari, en grænmeti miklu ódýrara. Fiskur er á svipuðu verði og heima og gæðin ekki síðri. Það sem slær mann hins vegar er verðmunurinn á litlu vörunum sem maður tekur varla eftir, þegar maður hendir þeim í matarkröfuna. Tilbúnar matvörur eru allt að helmingi ódýrari. Ég man ekki hvað 1944 réttirnir kosta t.d. heima, en minnir að það sé í kringum 500 kall. Hér kostar svipuð vara aldrei meira en 250 krónur. Þá er eftir að taka tillit til tilboða, sem eru sífellt í gangi hérna megin við Atlandshafið. Tilboðin eru oft í kringum 50% af matvöru, minna af drykkjarvöru.

Ég get vel sætt mig við verðmun milli landanna. Allt að 30% er ásættanlegt að mínu mati. Mér sýnist hins vegar að raunverulegur verðmunur sé yfir 50% þegar tilboðin eru tekin inn í dæmið. Það er einfaldlega allt of mikið. Sleggjudómar eins og að matvara sé miklu betri á Íslandi eru einfaldlega rangir. Flest matvara er ekki verri, eða betri í Bretlandi en á Íslandi. (Þar undanskil ég reyndar lambakjöt, sem er óætt í Bretlandi). Skinkuáleggið sem er oft á tíðum 40% vatn á Íslandi er ekki leyfilegt að kalla skinku hér um slóðir. Það er einhverskonar niðurskorin svínasulta, sem ætti að banna og verðlagið á þessu heima er óguðlegt með öllu. Maður spyr sig hvort það sé svo mikilvægt að halda úti þessum tveimur eða þrem svínabúum á landinu að slík frammistaða sé verðlaunuð með einokunaraðstöðu. Og hverjir eiga svo svína- og kjúklingabúin. Jú það eru bankarnir sem eru í beinni samkeppni við venjulega bændur um kjötsölu.

Ég er sannfærður um að sala á innfluttum kjúklingum og svínakjöti muni ekki hafa veruleg áhrif á sölu á lambakjöti á Íslandi. Kannanir hafa sýnt að fólk er tilbúið til að eyða ákveðnum hluta launa sinna í matvöru. Eftir því sem tekjurnar aukast, kaupir fólk dýrari matvöru. Íslenskt lambakjöt verður aldrei ódýrt og það á ekki að vera ódýrt, en það mun seljast engu að síður, sem hágæða matvara, þrátt fyrir innflutning á óæðri vöru. Hitt er svo annað mál að það er með ólíkindum að íslenskir bændur og afurðasölur skuli enn ekki vera farnir að upprunamerkja þessa vöru. Með því einu væri hægt að hækka verðið á vörunni, a.m.k. þeirri sem er afburða góð. Hverra hagsmunir eru að gera það ekki? Tæknin er til. Sláturhúsin (sumhver a.m.k.) eru tilbúin, en kjötvinnslurnar ekki. Guðni ráðherra hefur talað um þetta í a.m.k. 10 ár en ekkert gerist! Hann kemur líklega með þetta í kosningunum í vor enn eina ferðina, en það mun ekkert gerast frekar en hin 8 árin sem hann hefur verið ráðherra.


Spáðu þeir þessu?

Þegar þessi færsla er skifuð er haglél með þrumum og eldingum útifyrir, en það er nú svo að ský ferðast með meiri hraða hér um slóðir en annars staðar á byggðu bóli, þannig að ég geri ráð fyrir sól og blíðu eftir ca 10 mínútur. En ég segi nú bara eins og Króksarinn sem hringdi í veðurstofuna eftir að þakið fauk af húsinu hjá honum, og spurði "Spáðuð þið þessu?"


Vor í Winchester

Það er vor í Winchester, kom dálítið fyrr en vorið í Vaglaskóg, en að íslenskum sið stefnir í hret í næstu viku og hitinn á að detta niður í 5-6 gráður. Engu að síður keppast menn við að snyrta garðholurnar sínar. Páskaliljurnar blómstrandi og kirsuberjatréin byrjuð að blómstra. Sumir eru svo framtaksamir að slá blettina framan við húsið, sem reyndar er yfirleitt fremur lítið mál, þar sem blettirnir ná vanalega ekki 10 fermetrum. Er á meðan er.

Við Framsóknarmenn - í fréttum er þetta helst

Hér er Winchester eru Framsóknarmenn (Liberals) ráðandi flokkur og berjast við íhaldsmenn um völdin. Í mínu hverfi eru Framsóknarmenn í meirihluta, en íhaldsmenn með meirihluta í Hampshire og því sífelldur núningur milli þessarra tveggja ágætu flokka, ólíkt því sem þekkist á hinni frægu íslensku Eyri. Í tilefni af því hef ég ákveðið að gerast Framsóknarmaður, en bara í Winchester, annars staðar er ég bara krati!

Nokkur atriði er vert að hafa í huga hvað þetta varðar og setja fram nokkrar grunnreglur til að vinir og vandamennn móðgi mig ekki í ógáti í þessu nýtilkomna pólitíska lífi. Fyrst varðandi söguna.

Við Framsóknarmenn í Winchester tölum helst ekki um Frakka, og alls ekki við Frakka. Okkur Framsóknarmönnum í Winchester er jafnvel svo illa við Frakka að við berjum ítalskar smástelpur ef við sjáum þær, enda hafa þær eflaust ferðast í gegn um Frakkland til að komast hingað, svo eru tungumálin ansi lík og langt frá því að vera Eton- eða Winchester enska, sem er allri ensku æðri. Okkur Framsóknarmönnum í Winchester er illa við Frakka alla tíð síðan sá ófrómi maður Vilhjálmur (sem kallaður var sigurvegari af sumum, en af öðrum réttnefninu bastarður) óð yfir sundið og setti af okkar góðu kónga, sem dvöldu hér í Winchester langdvölum við drykkju og söng. Því til sannindamerkis höfum við járnsstyttu af Alfreð Kóngi og síðan drykkjuborð Artúrs og hans meðreiðarsveina, sem við höfum nú hengt upp í höll vora til að ófrómir fari nú ekki að sóða það út. Að vísu hafa einhverjir (annaðhvort íhaldsdurtar eða kommúnistar) haldið því fram að þetta ágæta borð, sem gert er úr enskri eik, sé reyndar frá því um 1400, sem er víst að sumra sögn talsvert eftir að Artúr reið um héruð og Evrópu og barði jafnt á Frökkum og múslimum. Við tökum ekki mark á því, enda var teiknimyndasaga í Timanum sáluga þar sem þetta mál allt var rakið í smáatriðum og er merk samtímaheimild.

 meira síðar


Í snjónum

Ég er búinn að vera í viku á Íslandi í rannsóknar- og vinnuferð. Dálítið sérkennilegt að koma heim, eftir að vera búinn að vera úti, þótt ekki sé lengri tími. Sérstaklega er fróðlegt að koma heim í umræðu um vöruverð á Íslandi ofan í umræðu í Bretlandi um holt mataræði. Mér sýnist nefnilega að það sem fyrst og fremst hafi gerst, er að verð á gosi og slíkum óþarfa hefur lækkað verulega, en aðrar vörur hafi lítið lækkað miðað við það sem var fyrir áramót. Gosið er hins vegar svipað dýrt og í Bretlandi, enda eru skattar á slíkum vörum í siðuðum löndum. Við borgum sem sagt kjúklingabringurnar okkar fjórfalt dýrara verði en í Bretlandi með bros á vör og erum bara ánægð með þetta alltsaman. Ísland best í heimi.

... og auðvitað rann það út í sandinn

Í síðustu bloggfærslu beið ég spenntur eftir viðbrögðum bresks samfélags við skýrslu um aðbúnað barna. Því miður bíð ég ennþá, en ekkert sérlega spenntur. Niðurstaðan var sem sagt sú að umræðan var öll í svipuðu líki og hún er á Íslandi, bara með breyttum nöfnum. Þetta eru vinsælustu afsakanirnar.

1. Það er ekkert að marka þessa könnun. Upplýsingarnar í henni eru úreltar. (Að mig minnir svipuð lína og hjá Haarde) Þetta er uppáhaldssetning margra stjórnarliða.

2. Þetta er örugglega Blair að kenna  (Alias: Allt var í lagi áður!) Þetta er uppáhaldssetning Cameron hins íhaldssama.

3. Þetta er ameríkönnum að kenna og hinu vonda samfélagsmunstri, sem þeir hafa neytt upp á okkur.

4. Þetta er mín uppáhalds. Þetta er James Oliver að kenna og þessarri sífelldu gagnrýni hans á skólakerfið og skólamáltíðir. Það er ekkert að því að borða franskar.

 Sem sagt allt góðar og gildar afsakanir, sem vel er hægt að nota í komandi kosningabaráttu.


Bresk börn með þeim óhamingjusömustu í heiminum!

Breskir fjölmiðlar fara hamförum yfir nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna í 21 iðnríki. Bretar á botninum ásamt Bandaríkjamönnum. Skandinavíska módelið á toppnum hér eins og annars staðar, ásamt Hollendingum. Ég veit ekki hvers vegna þetta ætti að koma Bretum á óvart og efast raunar stórlega um að staða barna hafi versnað á síðustu árum, hún hefur næstum örugglega batnað. Staða barna annars staðar hefur hins vegar batnað meira. Skólar í Bretlandi virðast vera góðir, a.m.k. þar sem við búum, séstaklega barnaskólarnir sem eru mjög líkir leikskólum. Skyndilega er 11 ára börnunum hins vegar kastaðSigríður Eygló stoltur nemandi í Westgate School upp á næsta skólastig, sem er mjög líkt íslenska framhaldsskólastiginu.

Eldri dóttir mín er 11 ára og því í yngsta bekk í gagnfræðaskólakerfinu, eins og það væri kallað á Íslandi, í skóla sem er í hópi bestu skóla Bretlands samkvæmt könnunum. Í skólanum eru rúmlega 1000 nemendur. Kennslan virðist vera góð. Nemendurnir fá sérstakan tudor, sem þau hitta á hverjum degi, en annars fara börnin milli bygginga í ólík fög. Áhersla í þessum skóla er fyrst og fremst á vísindi, þannig læra 11 ára börn eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Kennslan kemur skemmtilega á óvart, en annað vekur furðu.     

Það er hreinlega undarlegt fyrir gest eins og mig að fylgjast með krökkunum fara í skólann. Talsvert um 12-13 ára stráka sem reykja á leiðinni. Á heimleiðinni fer fjöldi þeirra í næstu sjoppu að kaupa nammi og snakk. Margir krakkanna virðast ekki borða neitt nema kartöfluflögur og nammi. Í skólamatsölunni er hægt að kaupa hamborgara, pizzur, snakk og gos eins og hver vill, að því er virðist niðurgreitt af borginni. Að vísu er hægt að kaupa hollan mat, en það virðist ekki vera í uppáhaldi hjá krökkunum þegar hitt er í boði. Ellefu ára stelpur mæta með málningardótið sitt í skólann. Vopnaðar maskara, varalit og spegli fara hléin milli tíma í að snyrta sig. Strákarnir fara hins vegar út og eru gæjalegir undir húsvegg, tilbúnir að taka við stöðunni, sem forfeður þeirra hafa gengt í árhunduð, sem höfuð fjölskyldunnar.

Við búum í borg sem er lítil, svipuð og Reykjavík í íbúafjölda en sem þjónustar líklega milli 2-300.000 manns, sem búa í hinu þéttbýla Hampshire. Þetta er ekki dæmigerð bresk borg, það því leyti að það er mjög lítið af innflytjendum og fátækt virðist vera mjög lítil. Rúmlega 70% íbúanna vinna við margvíslega þjónustu. Hér fara íbúarnir á kránna eftir vinnu og samfélagið allt er mjög kynjaskipt. Þetta kemur fram strax hjá krökkunum. Í stuttu máli sýnist mér að breska samfélagið þjáist af agaleysi, sem er allt öðruvísi og miklu alvarlegra en íslenska agaleysið. Breska agaleysið er afleiðing af íhaldssömu samfélagi, sem þarf nauðsynlega að ganga í gegn um stórfelldar breytingar. Þetta er allt spurning um forgangsröðun. Er mikilvægast að fara á kránna á hverjum degi klukkan 5 og vera til 7? Er nóg að byggja upp skóla þar sem nemendurnir fá góða menntun á sama tíma og þeir ýta undir íhaldsamar kynjamyndir? Er eðlilegt að stelpur líti á hlutverk sitt að vera sætar þegar þær eru 11 ára gamlar til að geta eignast mann og börn um tvítugt? (Að vísu hefur óléttum unglingsstúlkum fækkað mjög á síðustu árum) Er eðlilegt að 11 ára strákar séu farnir að undirbúa drykkju, fjölskyldu og vinnumunstrið, sem er helsta mein bresks samfélags? Sem betur fer eru breskir krakkar flestir ágætir, opnir, kurteisir og samviskusamir, og okkar stelpum hefur verið mjög vel tekið í skólunum þeirra. Bresku samfélagi veitir samt ekki af góðum skammti af skandinaviskum femenisma, sem myndi breyta ýmsu á tiltölulega skömmum tíma. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni í Bretlandi næstu daga.


mbl.is Bresk stjórnvöld sökuð um að hafa brugðist breskum börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Unnar bloggar

Höfundur

Unnar Rafn Ingvarsson
Unnar Rafn Ingvarsson
Unnar Ingvarsson. Sagnfræðingur á Sauðárkróki, nú búsettur í Winchester í Englandi. Þeir sem þurfa að hafa samband er bent á póstfangið unnar.ingvarsson@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Garðar að verða frægur
  • Burping Ron
  • Butter Cross í High Street
  • Dómkirkjan í Winchester
  • Vetrardagur í Skagafirði

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband